Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 11/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Kærufrestur liðinn. Frávísun.

Kærandi kærði brottvikningu úr B. Þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn var henni vísað frá nefndinni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. júlí 2023 er tekið fyrir mál nr. 11/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 22. júní 2023, kærði A B fyrir að hafa vikið henni úr félaginu í september 2022 með því að taka hana af félagaskrá á Facebook-síðu kærða og af tölvupóstskrá kærða. Kærandi telur að í brottvikningunni felist áreitni, sem ætlað sé að vera ógnandi og niðurlægjandi, og þar með brot á lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

     

    NIÐURSTAÐA

  3. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnu­markaðar, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr.
  4. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum nr. 85/2018 lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
  5. Fyrir liggur að meira en sex mánuðir eru liðnir frá þeim atvikum sem kærandi vísar til sem brottvikningar úr B sem átti sér stað í september 2022. Í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 verður að ganga út frá því að kærufrestur hafi byrjað þá að líða. Af efni kærunnar verður ekki ráðið að sérstaklega standi á í skilningi 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 til að kæran verði tekið til meðferðar. Með vísan til þessa er málinu vísað frá kærunefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum